Wednesday, November 05, 2008

Á Alþingi að vera að vasast í framkvæmdamálum?

Sjálfstæðisþingmenn segja þingið máttlaust

Í þessari grein kvartar þingið yfir að það fái ekki að taka þátt í ákvarðanatöku um efnahagsmál:

Þingmenn úr bæði stjórn og stjórnarandstöðu kölluðu eftir því í dag að Alþingi fengi meira hlutverk í því að taka ákvarðanir um framtíðarstefnu landsins og að framkvæmdavaldið sæti ekki eitt að því. Sögðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins meðal annars að þingið væri máttlaust. Í umræðum um störf þingsins vakti Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri - grænna, athygli á því að tvær umræður hefðu farið fram um efnahagsmálin að undanförnu en þinginu hefði verið haldið utan allrar ákvarðanatöku í efnahagsmálum. Einstaka nefndir hefðu fengið upplýsingar um stöðu mála en þegar um væri að ræða aðgerðir þá færi allt slíkt fram hjá ráðherrum.
Og ég sem hélt að Alþingi væri löggjafarsamkoma! Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt fyrir þingið að fylgjast með í þjóðfélaginu, en löggjafarvald er löggjafarvald og framkvæmdavald er framkvæmdavald. Ég alla vega hélt það.


Thursday, June 19, 2008

Trukkaveltur í Ártúnsbrekku

Í annað sinn á nokkuð skömmum tíma veltur hlaðinn treiler í Ártúnsbrekkunni. Þetta kemur manni verulega á óvart. Þessir bílar eru að koma út úr aðreinum, þar sem þeir eru búnir að fara í gegnum nokkuð krappar beygjur og velta svo þegar þeir eru komnir á beinu brautina. Þarna hlýtur eitthvað fleira að liggja að. Höfðu þeir kannski verið farnir að sveiflast í beygjunni og síðasta sveiflan, ásamt því að hliðarhallinn breytist, orðið til þess að bílarnir ultu? Er þarna einhver sérstök slysagildra?

Þetta og fleira þessu líkt eru spurningar sem hin nýja umferðaröryggisnefnd verður að taka til alvarlegrar umfjöllunar.

Sjá: Umferðartafir í Ártúnsbrekku og fleiri skyldar fréttir.

Annað sem vekur athygli er að það skuli taka meira en hálfan fimmta tíma fyrir lögregluna að koma umferð aftur á. Hvað eru mennirnir að sluxa?

Tuesday, April 29, 2008

Rykmengun á Reykjavíkurstrætum

Mikið hefur verið talað um mengun í höfuðborginni síðast liðinn vetur og enn heldur umræðan áfram. Met eru slegin í mengun og virðist sama hvort um málið fjalla pólitíkusar Reykjavíkur, heilbrigðiseftirlit borgarinnar, umhverfispostular, eða blaðamenn, menn virðast sjá aðeins einn mengunarvald: bílinn, og þá helst þá hluta hans sem veita hvað mest öryggi í glærahálku—nagladekkin. Einnig er þeim kennt um slit gatna.

Á sama tíma hef ég tekið eftir einu: Götur Reykjavíkur (og jafnvel fleiri sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu) eru nánast aldrei hreinsaðar—hvorki sópaðar né spúlaðar. Hvar í hinum vestræna heimi þekkist annar eins sóðaskapur?

Maður tekur vel eftir þessu þegar ekið er á eftir bílum sem fara aðeins út í kantinn (rennusteininn). Þá sópast rykið hátt í loft upp, og ef logn er myndar sallinn smám saman mistur. Mest er þetta áberandi, þegar ekið er á eftir stórum vörubílum og "treilerum". Mökkurinn getur þá orðið svo mikill að maður neyðist til að drepa á loftræstingu inn í bílinn!

Ég hef líka tekið eftir öðru. Slit á götum fer ekki svo mikið eftir því hversu margir aka á nagladekkjum, heldur fyrst og fremst því hversu oft götur eru saltaðar. En þá koma náttúrulega naglar og aðrir harðir (harðkorna) hlutir mjög mikið inn í myndina. Væri ekki nær að salta sjaldnar og að leyfa fólki að aka á sínum nagladekkjum? Hvers vegna það? Hvers vegna ekki að banna nagladekk?

Ég vinn á vinnustað í Kópavogi, þar sem bílastæði, sem reyndar eru allt of fá eins og víðast hvar þar og Reykjavík reynir að herma eftir, eru sum hver í allnokkrum halla. Síðast liðna tvo vetur hef ég nokkrum sinnum orðið vitni að að bílar, sem hefur verið lagt og gengið vel frá í gír og handbremsu, hafa lagt af stað sjálfir, reyndar verið hjálpað af nokkrum vindi stundum, og jafnvel hafnað á næsta bíl. Það er sammerkt þessum bílum að enginn var á nöglum, en einmitt glæra hálka til staðar.

Væri ekki nær að hvetja fólk til að vera á tryggilega búnum bílum, heldur en að vera með þetta sífellda væl út af nagladekkjum?

Hvernig væri nú að höfuðborgarhrepparnir tækju sig saman um að sópa og spúla reglulega (spúla t.d. þegar rignir) í eitt ár og sjá hvort mengunarmælingar sýna ekki lægri tölur? Ég trúi því varla að þetta sé með ráðum gert—að ráðamenn vilji beinlínis meira ryk til þess að geta haft gerfiástæðu til þess að banna nagladekk. Trúir þú því?