Monday, July 25, 2011

Glæpamenn og Jesús

Eftirfarandi er hugleiðing fyrir 24. júlí úr bókinni Reaching Towards The Heights eftir Richard Wurmbrand. Hún er ef til vill þörf áminning fyrir kristið fólk í dag í ljósi atburðanna í Noregi.


24. JÚLÍ

„Jesús sagði við hann [illvirkjann]: ‚Sannlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís.‘“ (Lúk. 23:43)


Heimur glæpamanna er heimur, sem þarfnast kærleika okkar og bæna mjög. Samfélagið getur aðeins gefið þeim þá refsingu sem þeir eiga skilið. Við getum gefið þeim hin guðdómlegu skilaboð um fyrirgefningu fyrir blóð Jesú.
Glæpamenn eru stöðugt ofsóttir af fórnarlömbum sínum — meðvitað eða ómeðvitað. Í bakgrunni allra annara orða heyra þeir síðustu orð fórnarlamba sinna. Þú getur talað vinsamlega við þá, en þeir vita hvað þú hugsar um þá: Þeir eru morðingjar.
Jafnvel þó að þeir hafi játað fyrir lögreglu eða presti, brjótast orð þeirra út úr þeim í draumum þeirra, í óviljandi tali. Fórnarlömbin eru við rúm þeirra á nóttunni.
Emile Zola lýsir í Therese Raquin málara, sem hafði drepið mann. Enginn vissi hvað hann hafði gert. Hann hélt áfram að mála, en nú líktust öll andlitin hvert öðru. Þau líktust andliti fórnarlambs hans. Andlit barna eða kvenna, öll líktust þau fórnarlambinu.
Glæpamenn hafa ekki aðeins drepið þá sem eru nú dauðir. Þeir hafa einnig drepið samúðina sem áður var að finna hjá meðbræðrum þeirra í þeirra garð. Allir fyrirlíta þá nema Jesús, vinur syndara. Hann kaus að deila örlögum glæpamannanna og vera krossfestur með þeim. Hann ákvarðaði fyrirfram að þegar Pílatus léti glæpamann lausan myndi múgurinn velja að veita morðingja frelsi — Barrabasi. Jesús dó glaður í hans stað.
Hann fyrirlítur ekki þjófa. Hann jafnar sjálfum sér víð þá. „Dagur Drottins mun koma sem þjófur“ (2. Pét. 3:10).
Glæpamenn taka við hjálpræðinu úr hendi Jesú. Þeir finna einnig skilning og samúð meðal sannra fylgjenda hans.