Thursday, January 22, 2009

Birting niðurstaðna úr skoðanakönnunum

Það er skelfilegur ósiður hjá íslenskum fjölmiðlum að birta niðurstöður í prósentum miðað við eingöngu þá sem afstöðu taka. Þegar fáir taka ekki afstöðu gerir þetta lítið til, en þegar margir taka ekki afstöðu, segir það einmitt mjög mikla sögu. Þá má oftast lesa út úr tölunum hvaða hópi flokkunar þeir teljast helst (eða hafa talist), sem sýna afstöðuleysi eða óákveðni nú. Dæmi:

Skoðanakönnun I.
Framsókn (B)Samfylking (S)Sjálfstæðisfl. (D)Aðrir
7%29%43%21%

Síðar kemur önnur skoðanakönnun. Hún sýnir allt aðra útkomu:

Skoðanakönnun II.
Framsókn (B)Samfylking (S)Sjálfstæðisfl. (D)Aðrir
15%19%27%39%

Ef við miðum við þessar tölur sjáum við að svo virðist sem B hafi bætt við sig meira en helmingi atkvæðamagns, S tapað 10 prósentustigum eða ríflega þriðjungi fylgis og D tapað 16 prósentustigum, einnig ríflega þriðjungi fylgis.

Ef við hins vegar bætum við óákveðnum, sem þó svara könnuninni, þá gæti útkoman verið eftirfarandi. Við gerum ráð fyrir 2000 manna úrtaki. Svarhlutfall 75%, eða 1500 manns. Í fyrra tilfellinu eru óákveðnir 100 en í því síðara 500. Þá myndu töflurnar líta svona út (samanteknar):

Skoðanakönnun I og II saman ásamt óákveðnum.
Framsókn (B)Samfylking (S)Sjálfstæðisfl. (D)AðrirÓákveðnir
6,5%27%40,1%19,6%6,7%
10%12,7%18%26%33,3%

Hér sjáum við að langmesta breytingin er meðal hinna óákveðnu. Þeirra "fylgi" næstum fjórfaldast, sem ætti þá að vera aðalfrétt dagsins. Í fjölmðilum myndum við hins vegar sjá fylgisaukningu Framsóknar og "Annarra" sem aðalfrétt, ásamt því hversu mjög hinir eru að tapa. Það sem rétt væri að lesa út úr fréttinni væri hins vegar líklegast að stuðningsmenn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks væru að gefa til kynna að þeir séu ósáttir á einhvern hátt við flokkana sína og telji jafnvel ólíklegt að þeir kysu þá miðað við óbreytt ástand.

Erlendis hef ég ekki séð annað en að ávallt sé fylgi óákveðinna haft með. Hitt kemur oft sem "aukaafurð", ef svo má að orði komast.

Það er því krafa mín að íslenskir fjölmiðlar fari að vinna eins og fólk og birta niðurstöður í samræmi við það sem gert er almennt á vesturlöndum, þ.e.a.s. hætti að rangtúlka niðurstöður með því að sleppa mikilvægum upplýsingum í samanburði sínum.