Monday, July 25, 2011

Glæpamenn og Jesús

Eftirfarandi er hugleiðing fyrir 24. júlí úr bókinni Reaching Towards The Heights eftir Richard Wurmbrand. Hún er ef til vill þörf áminning fyrir kristið fólk í dag í ljósi atburðanna í Noregi.


24. JÚLÍ

„Jesús sagði við hann [illvirkjann]: ‚Sannlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís.‘“ (Lúk. 23:43)


Heimur glæpamanna er heimur, sem þarfnast kærleika okkar og bæna mjög. Samfélagið getur aðeins gefið þeim þá refsingu sem þeir eiga skilið. Við getum gefið þeim hin guðdómlegu skilaboð um fyrirgefningu fyrir blóð Jesú.
Glæpamenn eru stöðugt ofsóttir af fórnarlömbum sínum — meðvitað eða ómeðvitað. Í bakgrunni allra annara orða heyra þeir síðustu orð fórnarlamba sinna. Þú getur talað vinsamlega við þá, en þeir vita hvað þú hugsar um þá: Þeir eru morðingjar.
Jafnvel þó að þeir hafi játað fyrir lögreglu eða presti, brjótast orð þeirra út úr þeim í draumum þeirra, í óviljandi tali. Fórnarlömbin eru við rúm þeirra á nóttunni.
Emile Zola lýsir í Therese Raquin málara, sem hafði drepið mann. Enginn vissi hvað hann hafði gert. Hann hélt áfram að mála, en nú líktust öll andlitin hvert öðru. Þau líktust andliti fórnarlambs hans. Andlit barna eða kvenna, öll líktust þau fórnarlambinu.
Glæpamenn hafa ekki aðeins drepið þá sem eru nú dauðir. Þeir hafa einnig drepið samúðina sem áður var að finna hjá meðbræðrum þeirra í þeirra garð. Allir fyrirlíta þá nema Jesús, vinur syndara. Hann kaus að deila örlögum glæpamannanna og vera krossfestur með þeim. Hann ákvarðaði fyrirfram að þegar Pílatus léti glæpamann lausan myndi múgurinn velja að veita morðingja frelsi — Barrabasi. Jesús dó glaður í hans stað.
Hann fyrirlítur ekki þjófa. Hann jafnar sjálfum sér víð þá. „Dagur Drottins mun koma sem þjófur“ (2. Pét. 3:10).
Glæpamenn taka við hjálpræðinu úr hendi Jesú. Þeir finna einnig skilning og samúð meðal sannra fylgjenda hans.

Tuesday, February 03, 2009

Stöð2 bregst við (?) og sýnir réttar úrlausnir

Það er ánægja að segja frá því að í kvöld sýndi Stöð2 niðurstöður skoðanakannana með réttum hætti með því að sýna fyrst kökurit þar sem allir þættir svörunar koma fram, ekki bara "þeir sem afstöðu tóku" eins og það heitir, þegar menn gleyma því að það að vilja ekki taka þátt og að vilja ekki svara, kann að vera afstaða engu síður en beint val "já" eða "neis" eða "Sjálfstæðisflokkinn" eða "Samfylkinguna" o. s. frv. Til hamingju, Stöð2.

Thursday, January 22, 2009

Birting niðurstaðna úr skoðanakönnunum

Það er skelfilegur ósiður hjá íslenskum fjölmiðlum að birta niðurstöður í prósentum miðað við eingöngu þá sem afstöðu taka. Þegar fáir taka ekki afstöðu gerir þetta lítið til, en þegar margir taka ekki afstöðu, segir það einmitt mjög mikla sögu. Þá má oftast lesa út úr tölunum hvaða hópi flokkunar þeir teljast helst (eða hafa talist), sem sýna afstöðuleysi eða óákveðni nú. Dæmi:

Skoðanakönnun I.
Framsókn (B)Samfylking (S)Sjálfstæðisfl. (D)Aðrir
7%29%43%21%

Síðar kemur önnur skoðanakönnun. Hún sýnir allt aðra útkomu:

Skoðanakönnun II.
Framsókn (B)Samfylking (S)Sjálfstæðisfl. (D)Aðrir
15%19%27%39%

Ef við miðum við þessar tölur sjáum við að svo virðist sem B hafi bætt við sig meira en helmingi atkvæðamagns, S tapað 10 prósentustigum eða ríflega þriðjungi fylgis og D tapað 16 prósentustigum, einnig ríflega þriðjungi fylgis.

Ef við hins vegar bætum við óákveðnum, sem þó svara könnuninni, þá gæti útkoman verið eftirfarandi. Við gerum ráð fyrir 2000 manna úrtaki. Svarhlutfall 75%, eða 1500 manns. Í fyrra tilfellinu eru óákveðnir 100 en í því síðara 500. Þá myndu töflurnar líta svona út (samanteknar):

Skoðanakönnun I og II saman ásamt óákveðnum.
Framsókn (B)Samfylking (S)Sjálfstæðisfl. (D)AðrirÓákveðnir
6,5%27%40,1%19,6%6,7%
10%12,7%18%26%33,3%

Hér sjáum við að langmesta breytingin er meðal hinna óákveðnu. Þeirra "fylgi" næstum fjórfaldast, sem ætti þá að vera aðalfrétt dagsins. Í fjölmðilum myndum við hins vegar sjá fylgisaukningu Framsóknar og "Annarra" sem aðalfrétt, ásamt því hversu mjög hinir eru að tapa. Það sem rétt væri að lesa út úr fréttinni væri hins vegar líklegast að stuðningsmenn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks væru að gefa til kynna að þeir séu ósáttir á einhvern hátt við flokkana sína og telji jafnvel ólíklegt að þeir kysu þá miðað við óbreytt ástand.

Erlendis hef ég ekki séð annað en að ávallt sé fylgi óákveðinna haft með. Hitt kemur oft sem "aukaafurð", ef svo má að orði komast.

Það er því krafa mín að íslenskir fjölmiðlar fari að vinna eins og fólk og birta niðurstöður í samræmi við það sem gert er almennt á vesturlöndum, þ.e.a.s. hætti að rangtúlka niðurstöður með því að sleppa mikilvægum upplýsingum í samanburði sínum.

Wednesday, November 05, 2008

Á Alþingi að vera að vasast í framkvæmdamálum?

Sjálfstæðisþingmenn segja þingið máttlaust

Í þessari grein kvartar þingið yfir að það fái ekki að taka þátt í ákvarðanatöku um efnahagsmál:

Þingmenn úr bæði stjórn og stjórnarandstöðu kölluðu eftir því í dag að Alþingi fengi meira hlutverk í því að taka ákvarðanir um framtíðarstefnu landsins og að framkvæmdavaldið sæti ekki eitt að því. Sögðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins meðal annars að þingið væri máttlaust. Í umræðum um störf þingsins vakti Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri - grænna, athygli á því að tvær umræður hefðu farið fram um efnahagsmálin að undanförnu en þinginu hefði verið haldið utan allrar ákvarðanatöku í efnahagsmálum. Einstaka nefndir hefðu fengið upplýsingar um stöðu mála en þegar um væri að ræða aðgerðir þá færi allt slíkt fram hjá ráðherrum.
Og ég sem hélt að Alþingi væri löggjafarsamkoma! Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt fyrir þingið að fylgjast með í þjóðfélaginu, en löggjafarvald er löggjafarvald og framkvæmdavald er framkvæmdavald. Ég alla vega hélt það.


Thursday, June 19, 2008

Trukkaveltur í Ártúnsbrekku

Í annað sinn á nokkuð skömmum tíma veltur hlaðinn treiler í Ártúnsbrekkunni. Þetta kemur manni verulega á óvart. Þessir bílar eru að koma út úr aðreinum, þar sem þeir eru búnir að fara í gegnum nokkuð krappar beygjur og velta svo þegar þeir eru komnir á beinu brautina. Þarna hlýtur eitthvað fleira að liggja að. Höfðu þeir kannski verið farnir að sveiflast í beygjunni og síðasta sveiflan, ásamt því að hliðarhallinn breytist, orðið til þess að bílarnir ultu? Er þarna einhver sérstök slysagildra?

Þetta og fleira þessu líkt eru spurningar sem hin nýja umferðaröryggisnefnd verður að taka til alvarlegrar umfjöllunar.

Sjá: Umferðartafir í Ártúnsbrekku og fleiri skyldar fréttir.

Annað sem vekur athygli er að það skuli taka meira en hálfan fimmta tíma fyrir lögregluna að koma umferð aftur á. Hvað eru mennirnir að sluxa?

Tuesday, April 29, 2008

Rykmengun á Reykjavíkurstrætum

Mikið hefur verið talað um mengun í höfuðborginni síðast liðinn vetur og enn heldur umræðan áfram. Met eru slegin í mengun og virðist sama hvort um málið fjalla pólitíkusar Reykjavíkur, heilbrigðiseftirlit borgarinnar, umhverfispostular, eða blaðamenn, menn virðast sjá aðeins einn mengunarvald: bílinn, og þá helst þá hluta hans sem veita hvað mest öryggi í glærahálku—nagladekkin. Einnig er þeim kennt um slit gatna.

Á sama tíma hef ég tekið eftir einu: Götur Reykjavíkur (og jafnvel fleiri sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu) eru nánast aldrei hreinsaðar—hvorki sópaðar né spúlaðar. Hvar í hinum vestræna heimi þekkist annar eins sóðaskapur?

Maður tekur vel eftir þessu þegar ekið er á eftir bílum sem fara aðeins út í kantinn (rennusteininn). Þá sópast rykið hátt í loft upp, og ef logn er myndar sallinn smám saman mistur. Mest er þetta áberandi, þegar ekið er á eftir stórum vörubílum og "treilerum". Mökkurinn getur þá orðið svo mikill að maður neyðist til að drepa á loftræstingu inn í bílinn!

Ég hef líka tekið eftir öðru. Slit á götum fer ekki svo mikið eftir því hversu margir aka á nagladekkjum, heldur fyrst og fremst því hversu oft götur eru saltaðar. En þá koma náttúrulega naglar og aðrir harðir (harðkorna) hlutir mjög mikið inn í myndina. Væri ekki nær að salta sjaldnar og að leyfa fólki að aka á sínum nagladekkjum? Hvers vegna það? Hvers vegna ekki að banna nagladekk?

Ég vinn á vinnustað í Kópavogi, þar sem bílastæði, sem reyndar eru allt of fá eins og víðast hvar þar og Reykjavík reynir að herma eftir, eru sum hver í allnokkrum halla. Síðast liðna tvo vetur hef ég nokkrum sinnum orðið vitni að að bílar, sem hefur verið lagt og gengið vel frá í gír og handbremsu, hafa lagt af stað sjálfir, reyndar verið hjálpað af nokkrum vindi stundum, og jafnvel hafnað á næsta bíl. Það er sammerkt þessum bílum að enginn var á nöglum, en einmitt glæra hálka til staðar.

Væri ekki nær að hvetja fólk til að vera á tryggilega búnum bílum, heldur en að vera með þetta sífellda væl út af nagladekkjum?

Hvernig væri nú að höfuðborgarhrepparnir tækju sig saman um að sópa og spúla reglulega (spúla t.d. þegar rignir) í eitt ár og sjá hvort mengunarmælingar sýna ekki lægri tölur? Ég trúi því varla að þetta sé með ráðum gert—að ráðamenn vilji beinlínis meira ryk til þess að geta haft gerfiástæðu til þess að banna nagladekk. Trúir þú því?

Tuesday, September 14, 2004

Hættur í Hvalfjarðargöngum

Göngin komu...en

Ég er búinn að keyra þessi göng frá því áður en þau voru opnuð. Tilhlökkunin var mikil að geta ekið daglega í vinnuna fyrir sunnan, því að verðið átti að verða viðráðanlegt. Því miður brást það og er gangagjaldið því skattur á ferðalanga, einkum þá sem mest þurfa á þeim að halda, Akurnesinga og nágranna þeirra.

En það var ekki þetta sem ég ætlaði að ræða um, heldur það sem ég uppgötvaði fljótt, en hef beðið eftir að skrifað yrði um: hætturnar í göngunum. Þar sem ég hef enn ekki orðið var við vitlegar umræður um hættur ganganna og mögulegar úrbætur, þá tel ég að rétt sé að setja fram mínar skoðanir á málinu.

Hættur ganganna

Þegar ekið er erlendis, sér maður að hlutir eru með ýmsum hætti. Göng líka. Sums staðar eru þau dimm og þröng (einkum í Noregi), en annars staðar björt, breið og þægileg að aka um. Ég hef ekið um göng í Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Þýskalandi, Belgíu, Lúxembúrg, Frakklandi, England og Bandaríkjunum (ekið frá Seattle um Kaliforníu til Tucson í Arizona) og þannig séð margar og mismunandi útfærslur. Eftirfarandi greiningu og mögulegar lausnir byggi ég á þessari reynslu sem ökumaður.

  1. Göngin eru of dimm.
    Óvíða hef ég ekið dimmari göng en Hvalfjarðargöngin (sleppum Ólafsfjarðarmúla o.þ.u.l.). Göngin eru múrsprautuð með lit sem gleypir nánast alla birtu. Til þess að reyna að vega upp á móti þessu er miklu rafmagni eytt í raflýsingu, sem af sömu ástæðum dugar skammt. Þetta sjáum við meðal annars á því hversu hægt þeir aka, sem sjaldan fara um göngin, eða þeir sem farnir eru að missa bestu sjón.
    Bæði í Bandaríkjunum og Frakklandi (og víðar) hef ég ekið um göng sem eru hvítkölkuð. Það munar gífurlega miklu á birtustigi og eykur á öryggi að göngin séu björt, vegna þess að minni athygli og orka fer í það að reyna að sjá hvar maður er staddur á veginum. Þetta er einn allra stærsti öryggisþátturinn í lokuðu umferðarrými (göngum, stokkum o.fl.).
  2. Kantsteinar
    Þegar ég fór um göngin áður en þau voru fullkláruð (þau voru stundum opnuð þegar veður voru ill) fundust mér þau víð og lofa góðu. En því miður fannst einhverjum þörf á að setja kantsteina og búa til eins konar gangstéttar á hvora hlið -- eins og þeir vissu ekki að umferð gangandi fólks yrði bönnuð!
    Hvað gerist ef bíll rekst utan í kantstein? Margir bílstjórar hafa reynslu af því. Með örfáum undantekningum er eins og rykkt sé í stýrið og því snúið af afli í þá átt, sem hindrunin (kantsteinninn) er -- út af! Bíllinn hendist þá út í vegginn og kastast til baka út á veginn aftur og gjarnan út í vegg hinum meginn, eða veltur.
    Eru aðrar lausnir? Það er mjög óvíða, nema í stuttum göngum og þá helst innanbæjar, sem maður sér kantsteina í göngum erlendis. Besta lausn sem ég hef séð er að setja "rillur" úr nokkurra millimetra þykku hvítu asfalti úti í kantana. Rillurnar (upphækkaðar línur) eru ýmist með jöfnu eða misjöfnu millibili. Þegar bíll ekur yfir þær, myndast hátt hljóð, sem vekur jafnvel fast sofandi bílstjóra. Þeir hafa þá smástund til þess að kippa bílnum inn á veginn aftur og þó svo að það gerist ekki, þá ætti bíllinn að fara mjúklegar út í vegginn og hætta á veltu eða miklum meiðslum að minnka töluvert.
    Ég er sannfærður um að þessi lausn mundi fækka óhöppum í göngunum verulega.
  3. Þungaflutningar
    Mikið hefur verið kvartað undan þungaflutningum, einkum flutningum eldsneytis. Loksins hefur eitthvað verið gert varðandi þungaflutninga. Umferð þungaflutningabifreiða hefur verið takmarkaður við ákveðna tíma sólarhringsins -- misjafnan eftir dögum vikunnar. Mér sýnist þó að mikið vanti uppá. Enn eru venjulegir ökumenn að lenda í því að vanbúnir flutningabílar aka á allt niður í 20 km hraða niður göngin og safna á eftir sér fjölda bifreiða eða freista manna til ólöglegs framúraksturs. Þetta gera þeir vegna þess að þeir hafa ekki hemlunar- eða vélarafl til þess að stöðva bifreiðina ef eitthvað kemur upp á. Upp göngin hinum megin aka þeir svo á allt niður í sama hraða -- eftir hleðslu og vélarafli. Þessa þungaflutningaumferð þarf að takmarka við alminnsta umferðartíma.
  4. Hættuleg efni (Dangerous Goods)
    Akstur með eldfim og sprengifim efni voru vandamál, en eitthvað virðist hafa verið gert í þeim málum -- alla vega er það sjaldnar nú orðið, sem maður lendir í að aka á eftir slíkum bílum. Annað hvort ætti að banna þennan akstur með öllu, eða úthluta sérstökum tíma, sem þá væri vel auglýstur á skiltum og með framíkalli á útvarpssendingum ganganna, svo að menn eigi kost á að velja að aka þá Hvalfjörðinn eða að snúa við.
  5. Mengun
    Sumir ofangreindra flutningabíla og einnig aðrir bílar með dísilvélar valda mikilli mengun þegar ekið er undir álagi. Þá eru vélar eitthvað vanstilltar eða slitnar. Ég tel að taka þurfi nokkuð hart á þeim sem þannig tækjum aka, því að það er fremur óheilsusamlegt að anda að sér þeirri mengun, sóti og öðru, sem myndast við þessar aðstæður, einkum þar sem gangamenn virðast sparir á blásarana, sem eiga að sjá um að reykhreinsa göngin.
  6. Slitflötur (bundið slitlag)
    Ef eldsvoði kemur upp í göngunum, að ekki sé talað um slíkt stórslys að kvikni í eldfimum/sprengifimum farmi, hlýtur að skipta máli að efni ganganna sé í óbrennanlegu eða mjög tregbrennandi efni. Malbik og olíumöl eru efni, sem auðveldlega verða eldsmatur. Slitlag vegarins í göngunum hefði átt frá upphafi að vera steypa.

Hvað þarf að gera?

Sjálfsagt má nefna til fleiri hættur en hér eru nefndar, en eitt er víst: Eitthvað þarf að gera.
Í fluginu er lögð mikil áhersla á öryggismál. Þar starfa lögskipaðar nefndir og einnig hafa flugfélögn sjálf komið á stofn öryggisnefndum innan sinna veggja. Þessar nefndir reyna að finna leiðir til þess að minnka áhættuna í fluginu. Skrifaðar eru reglur sem félögin þurfa síðan að fara eftir.
Í samgöngumálum á landi virðast eingar slíkar nefndir vera starfandi. Ef þær eru það, þá fer lítið fyrir þeim. Að mínu viti verður að koma á sérstakri nefnd um umferð í veggöngum, sem hafi vald til þess að setja reglur um þennan öryggisþátt. Þessa nefnd þurfa hlutlausir aðilar að skipa, þ.e. ekki fulltúrar gangaeigenda eða Samgönguráðuneytis, nema í mesta lagi einn frá hvorum, þar sem báðir hljóta að teljast eiga sérstakra fjárhagslegra hagsmuna að gæta. Nefndarmenn þurfa að vera skipaðir af Umferðarráði, Hæstarétti, Bílgreinasambandi, FÍB, Neytendasamtakanna og öðrum, sem teljast mega fulltrúar "neytenda".
Hugsanlega þarf einhverja lagasetningu til þess að slík nefnd hafi nægilegt vægi. Það ætti ekki að þurfa, en mér sýnist því miður að eigendur ganganna og Samgönguráðuneyti hafi til þessa sýnt ákveðinn mótþróa í þeirri litlu umræðu af þessu sem þó hefur þegar farið fram (eldsneytisflutningar) og séu því ekki líklegir til þess að taka á málinu, og líkast til heldur líklegir til þess að standa í gegn.
Það væri gaman og nauðsynlegt að fá umræðu um göngin, einkum hættuþáttinn, en einnig þarf að ræða gangagjaldið og þá mismunun sem þar á sér stað. En það er efni í annan pistil.